Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Staðarbakka, 531 Hvammstanga
Kirkjugarður
Bílastæði
Fjöldi: 120
Sókn
Staðarbakkasókn

Staðarbakkakirkja

Staðarbakkakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1890. Hönnuður hennar var Halldór Bjarnason bóndi og kirkjusmiður frá Litlugröf í Borgarhreppi. Í öndverðu var kirkjan öll klædd pappa að utan en bjúgstallur undir turni og turnþak klædd sinki og hún stóð á steinhlöðnum sökkli. Þak var klætt bárujárni árið 1897 og suðurhlið og framstafn árið 1927.

Á árunum 1980–1983 var gert við kirkjuna og þá m.a. steyptur sökkull undir hana og norðurhlið og kórbak klædd bárujárni fyrsta sinni og stoðir settar undir setuloft og turn. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er hár ferstrendur turn með krossreist þak. Hann stendur á bjúgstalli. Undir þakskeggi turns eru skornir sperruendar og randskornar vindskeiðar undir þakbrúnum. Kirkjan er bárujárnsklædd, bjúgstallur klæddur sléttu járni, en turn listaþili, og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með miðpósti og tveimur þriggja rúðu römmum, einn heldur minni er á framstafni og lítill gluggi er á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Altaristaflan er eftir Eyjólf Eyfells listmálara frá árinu 1931 og sýnir hún Krist með útbreiddan faðm. Kirkjan á kaleik og patínu sem eru danskir gripir frá árinu 1843. Skírnarfonturinn er úr ljósri eik. Skálin er úr látúni með drifnum krossi og dúfu. Klukkur Staðarbakkakirkju eru frá árinu 1749, þá umsteyptar úr þremur eldri klukkum.

Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Edda Hlíf Hlífarsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Magnús Magnússon
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Margrét Rut Valdimarsdóttir
  • Héraðsprestur Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi