
- María Guðrúnar. Ágústsdóttir
- Sóknarprestur

Bæjarkirkja var vígð þann 2. júlí árið 1967 er var teiknuð af arkítektinum Halldóri H. Jónssyni. Utan á vestur gafli kirkjunnar, til hliðar við útidyr er plata úr rauðum steini, með krossmarki og svohljóðandi áletrun: „Bæjarkirkja vígð 2.7. 1967. Kirkjan er stálgrindahús með steyptum veggjum. Þak er járnklætt, hvítmálað. Veggir að utan eru rauðmálaðir. Turninn er hvítmálaður og á honum er ljósakross. Útidyrahurðin er úr maghony. Kirkjan fékk gagngerða viðgerð árið 1996.
Altaristaflan er eftir Karen Agnete Þórarinsson. Hún er lýsing listamannsins af hvítasunnuundrinu. Heilagur andi í líki dúfu kemur yfir lærisveina Jesú. Lærisveinarnir á myndinni er íslenskt sveitafólk í sauðskinnsskóm og konur á peysufötum. Upp af gylltum ramma um altaristöflu gengur gylltur trékross. Altaristafla úr eldri kirkju, eftir Þórarinn B. Þorláksson, er varðveitt í kór, við stúku að norðanverðu. Myndefnið er upprisa Jesú, eftirmynd af altaristöflu Dómkirkjunnar í Reykjavík. Fjögurra radda hljómfagurt pípuorgel er í kirkjunni, smíðað af Björgvin Tómassyni orgelsmið.
Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru gamlir gripir. Þá á kirkjan annan nýlegan kaleik úr silfri með tveimur hvítum íslenskum steinum á stilknum. Skírnarsárinnr er úr baulusteini, með koparskál frá árinu 1976. Klukknaport er á kirkjugarðsgirðingu framan við útidyr kirkjunnar. Það var teiknað af Halldóri H. Jónssyni. Ein lítil klukka er þar í. Önnur klukka mjög forn er varðveitt í kór kirkjunnar. Hún er að mati sérfræðinga óyggjandi frá miðri 12. öld, e.t.v. elsta kirkjuklukka á Íslandi. Hún sprakk eða rifnaði við notkun árið 1987.
Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson
