
- Elínborg Sturludóttir
- Prestur
Viðeyjarkirkja er friðlýst kirkja, sem byggð var árið 1774. Hún er í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og var sett á fornleifaskrá í október árið 1962. Kirkjan er hlaðið steinhús og eru veggirnir hlaðnir úr tilhoggnum grásteini. Yfir gluggum og dyrum eru hlaðnir bogar. Á hvorri hlið eru þrír gluggar og einn á framstafni yfir kirkjudyrum. Á kirkjunni er sperruþak úr tilhoggnum viði og er það nákvæmlega krossreist. Veggir eru hvítir, en klukknaport og kvistur biksvört í stíl við þakið. Það sem einkennir kirkjuna er að prédikunarstóllinn er yfir altarinu. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem smíðuð voru af Sigurði Þorsteinssyni gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn. Klukkur Viðeyjarkirkju hanga í klukknaportinu upp af miðju þaki. Sunnan megin er ein klukka frá árinu 1786 og norðan megin er tvær klukkur, sú stærri frá árinu 1752, hin frá árinu 1735.

