Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Álftanesvegi, 311 Borgarbyggð
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 50
Sókn
Álftanessókn

Álftaneskirkja

Álftaneskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1904. Hönnuður hennar var Baldur Benediktsson forsmiður. Á kirkjunni er krossreist þak. Stöpull er ferstrendur og á honum er tvískiptur turn, ferstrendur að neðan, en áttstrendur og burstsettur að ofan. Á honum er há áttstrend spíra. Kirkjan er bárujárnsklædd en turnþök klædd sléttu járni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Undir þakbrúnum kirkju eru skornar vindskeiðar en tannstafur undir þakbrún stöpuls. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir póstagluggar með þriggja rúðu römmum og yfir þeim veglegar skrautfjalir. Efst á framstafni kirkju hvorum megin stöpuls er minni gluggi, einn á suðurhlið turns og tveir á stöpli, sá neðri með skrautfjöl yfir. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar hurðir, þær ytri spjaldsettar vængjahurðir með skorinni fjöl yfir en spjaldsett hurð að innan.

Altaristaflan er eftirmynd Sigurðar Guðmundssonar málara af töflu G.T. Wegerens í Dómkirkjunni í Reykjavík. Kirkjan á silfurkaleik og patínu frá 16. eða 17. öld, endanleg gerð með nýrri skál og fæti er verk Daníels Hjaltasonar 1809-1877 silfursmiðs. Norskt orgel er á söngloftinu. Í Álftaneskirkju eru tvær klukkur. Sú minni er frá 18. öld, hin er án áletrunar.

Ljósmynd tók Ásdís Haraldsdóttir.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Heiðrún Helga Bjarnadóttir Back
  • Sóknarprestur