Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Þingvöllum, 806 Selfossi
Bílastæði
Streymi
Fjöldi: 40
Sókn
Þingvallasókn

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1859. Hönnuður hennar var Eyjólfur Þorvarðsson, snikkari frá Bakka. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur burstsettur turn, með ferstrenda spíru. Undir honum er bjúgstallur. Bogadregin hljómop með hlera og tveimur kvartbogarúðum eru á þremur turnhliðum og krappar undir þakskeggi. Kirkjan er klædd listaþili en þak og turn eru eirklædd.

Hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkjunnar eru þrír gluggar og einn heldur minni á framstafni yfir kirkjudyrum. Þeir eru bogadregnir að ofan en yfir þeim eru burstlaga faldar og vatnsbretti. Í þeim er miðpóstur og mjóir þverpóstar um sex rúður.

Fyrir kirkjudyrum er okahurð, klædd tígulsettum listum og hálfhringsgluggi yfir með fjórum rúðum en einfaldur bjór efst. Altaristaflan er olíumálverk eftir Anker Lund, málað árið 1895. Hún sýnir Krist lækna blinda manninn. Á kórvegg til hliðar við altarið er gömul altaristafla eftir Ófeig Jónsson bónda á Heiðarbæ. Taflan er olíumálverk, málað á tréspjald árið 1834 og sýnir Krist með lærisveinunum við síðustu kvöldmáltíðina. Taflan var seld skoskum rithöfundi árið 1899 og prýddi Shorwellkirkju á eynni Wight á Ermasundi fram til ársins 1974, en þá var hún aftur gefin Þingvallakirkju. Kirkjan á silfurkaleik og patínu eftir Hans Grönbeck smíðað árið 1744. Prédikunarstóllinn er með ártalinu 1683. Skírnarfonturinn er úr tré og skírnarskálin úr silfri. Báðir gripirnir eru smíðaðir eftir forsögn og teikningum Guðmanns Ólafssonar bónda í Skálabrekku í Þingvallasveit. Orgelharmóníum í kór var fengið frá Noregi. Kirkjuklukkur eru þrjár í turni, tvær gamlar, en hin þriðja, stærsta og yngsta er Íslandsklukkan, sem fyrst var notuð opinberlega þann 17. júní árið 1944 til þess að hringja inn nýja öld sjálfstæðs lýðveldis á Íslandi.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Kristín Þórunn Tómasdóttir
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Bergþóra Ragnarsdóttir
  • Djákni