
- Edda Hlíf Hlífarsdóttir
- Prestur

Bólstaðarhlíðarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1888. Hönnuður hennar var Þorsteinn Sigurðsson forsmiður. Þakið var í öndverðu pappaklætt, en var klætt bárujárni árið 1933. Þök kirkjunnar eru krossreist og klædd bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar, einn á hvorri kórhlið og einn heldur minni á framhlið stöpuls. Í þeim er krosspóstur og fjórar rúður. Stöpull nær upp yfir mæni kirkju og á honum er áttstrent þak og á því áttstrendur turn með lágt áttstrent þak. Hljómop með hlera fyrir er á fjórum turnhliðum. Turnþök eru klædd sléttu járni. Efst á þremur hliðum stöpuls er lítill gluggi.
Fyrir forkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi yfir. Altaristaflan er olíumáluð mynd sem merkt er C.R. Hún sýnir Jesú Krist við hægri hönd Guðs föður og sitja þeir í þrepum. Kirkjan á silfurkaleik frá 1867 með toppmynduðu loki sem haft er sem patína þegar því er snúið við. Gripirnir eru smíðaðir í Danmörku. Klukkur Bólstaðarhlíðarkirkju er tvær, önnur er frá árinu 1655, en hin mun vera frá fyrri hluta 19. aldar.
Ljósmynd tók Ólafur Sigurðsson.

