Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Útskálum við Skagabraut, 251 Suðurnesjabæ
Bílastæði
Hljóðkerfi
Salerni
Streymi
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 170
Sókn
Útskálasókn

Útskálakirkja

Útskálakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1861-1862. Hönnuður hennar var Einar Jónsson forsmiður frá Brúarhrauni. Kirkjan var í öndverðu öll klædd listaþili og listasúð, en klædd bárujárni í áföngum á árunum 1889-1917, en norðurhlið kirkjunnar ekki fyrr en um 1961. Kirkjan var lengd til austurs árið 1895 um 4½ alin og smíðuð við hana forkirkja. Hönnuður breytinganna var Jóhannes Böðvarsson forsmiður á Útskálum. Forkirkjan var stækkuð árið 1975. Hönnuður þeirra breytinga var Ragnar Emilsson húsateiknari hjá embætti Húsameistara ríkisins. Þak kirkjunnar er krossreist og hálfvalmi yfir kórbaki, en brotaþak á forkirkju. Upp af vesturstafni er ferstrendur turn með íbjúgt píramítaþak. Hann stendur á lágum stalli og á framhlið turns er hljómop með hlera. Randskornar vindskeiðar eru undir þakskeggi turns og þakbrún forkirkju. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fimm gluggar með sex rúðum og lítill gluggi á vesturstafni yfir forkirkju. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Altaristöfluna málaði Gustav T. Wegener eftir málverki franska málarans Nicolas Pussin. Hún sýnir boðun Maríu og var gefin kirkjunni árið 1878. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, smíðuð árið 1841 af Ásbirni Jacobsen gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn. Þá á kirkjan kaleik úr nýsilfri, sem var gefinn kirkjunni árið 1961. Skírnarfonturinn er úr harðviði, útskorinn af Ríharði Jónssyni, myndskera um miðja 20. öld. Prédikunarstóllinn var keyptur til Útskála árið 1886, en var upphaflega smíðaður í Dómkirkjuna í Reykjavík árið 1796. Níu radda pípuorgel frá árinu 1984 er í kirkjunni. Þrjár koparklukkur eru í turni, ein án áletrunar, talin ný árið 1886. Á annarri klukku er áletrunin 1740. Þriðja klukkan mun hafa verið umsteypt úr eldri klukku fyrir árið 1765.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Sigurður Grétar Sigurðsson
  • Sóknarprestur