- Erla Björk Jónsdóttir
- Prestur

Bægisárkirkja
Bægisárkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1857-1858. Hönnuður hennar var Sigurður Pétursson timburmaður á Akureyri, en Benóný Jónsson forsmiður hannaði forkirkju. Í öndverðu var kirkjan klædd slagþili og rennisúð, lítill kvistur var yfir prédikunarstól innan miðglugga og í kirkjunni voru póstagluggar og hún stóð á steinhlöðnum sökkli. Sökkull var steinsteyptur og þak klætt bárujárni á árunum 1931–1932.
Kirkjan var múrhúðuð að utan árið 1954 og í hana settir nýir gluggar frábrugðnir þeim sem áður voru. Múrhúðunin var brotin af árið 1983, veggir einangraðir að utan og klæddir trapisuplötum. Þak kirkjunnar er krossreist, klætt bárujárni og kvistur á suðurhlið. Slétt járn er á sveigðu þaki forkirkjunnar.
Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með sex rúðum, þrír á kórbaki með fjórum rúðum, en á kvisti og framstafni forkirkju er póstagluggi með tveimur þriggja rúðu römmum. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð. Í kirkjunni er altarisbrík í endurreisnarstíl, líklega smíðuð og máluð á Íslandi á 18. öld. Á miðtöflunni eru málaðar 12 myndir úr píslarsögu Krists. Síðasta myndin sýnir upprisuna.
Innan á vængjum er öðru megin mynd sem sýnir fæðingu Jesú, en hinum megin er mynd, sem sýnir upprisuna. Málverk á utanverðum vængjum sýnir síðustu kvöldmáltíðina, umlukið rokokóskrauti. Altaristafla úr Myrkárkirkju hangir á norðurvegg kirkjunnar. Hún var líklega máluð í Danmörku um aldamótin 1700. Á miðtöflunni er síðasta kvöldmáltíðin. Á öðrum vængnum er mynd af skírn Jesú, á hinum himnaför hans.
Kirkjan á kaleik og patínu, sem smíðuð voru í Danmörku á fyrri hluta 19. aldar. Prédikunarstóllinn er með máluðum myndum af guðspjallamönnunum, líklega gerður í Danmörku um aldamótin 1700. Skírnarfonturinn var smíðaður og skorinn út árið 1958 af Einari Einarssyni djákna í Grímsey. Tvær klukkur eru í Bægisárkirkju, önnur er frá árinu 1797, hin leturlaus og líklega yngri. Þriðja klukkan er geymd á sönglofti. Hún er með áletrun: Soli deo gloria Ao 1750.

- Oddur Bjarni Þorkelsson
- Sóknarprestur