
- Gunnbjörg Óladóttir
- Héraðsprestur Suðurprófastdæmis

Hagakirkja er friðlýst timburkirkja, byggð árið 1891. Hönnuður var Sigurður Árnason smiður. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er hár ferstrendur turn með lágt pýramídaþak. Bogadregið hljómop með hlera er á framhlið turns og undir honum lágur stallur. Kirkjan er klædd listaþili, þak bárujárni en turnþak sinki og stendur kirkjan á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn minni yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bjór yfir.
Yfir kirkjunni stafna á milli er borðaklædd stjörnusett hvelfing. Altaristaflan er eftir Þorstein Guðmundssson og er máluð um 1850 eftir kvöldmáltíðarmynd Leonardo da Vinci. Taflan var upphaflega í Skarðskirkju á Landi, en lánuð til Hagakirkju árið 1960. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri hvorutveggja var smíðað árið 1840 af Jafet Einarssyni gull og silfursmiði í Reykjavík. Skírnarfontinn gerði af Ríkarður Jónsson myndskeri árið 1965. Klukka Hagakirkju var steypt í Stokkhólmi árið 1802.
