
- Hans Guðberg Alfreðsson
- Prófastur Kjalarnessprófastdæmis

Vídalínskirkja var vígð þann 30. apríl árið 1995. Kirkjan er kennd við Jón biskup Vídalín í Görðum. Hann var prestur þar frá árinu 1696 til ársins 1698 er hann var vígður biskup að Skálholti. Því embætti gegndi hann allt til dauðadags árið 1720. Vídalínspostilla, sem hann samdi, kom út árið 1718. Þegar ákveðið var að reisa nýja kirkju í Garðabæ varð að ráði að nefna hana Vídalínskirkju í minningu Jóns biskups Vídalíns, sem er einn merkasti íbúi prestakallsins fyrr og síðar. Vídalínskirkja er hönnuð af Skúla H. Norðdahl arkitekt, en hann hannaði einnig safnaðarheimilið sem byggt var fyrr. Kirkjan rúmar allt að 300 manns í sæti, en unnt er að opna inn í safnaðarheimilið og geta þá yfir 500 manns verið við athöfn. Í kirkjunni er Kristsmynd eftir Baltasar. Hún vísar til orðanna í Lúk. 24:29 ”Vertu hjá oss því kvölda tekur og degi hallar”.
Kirkjan á kaleik og oblátuskál úr silfri. Hönnuður gripanna er Pétur Tryggvi Hjálmarsson gullsmiður. Skírnarfonturinn er stuðlabergsstöpull með eirsteyptri skál. Höfundur hans var Pétur Bjarnason. Orgelið er frá Aquincum Orgelbau Budapest. Það mun hafa verið keypt árið 1992 eða 1993. Þrjár klukkur af mismunandi stærð eru í klukknaporti.



