- Sólveig Halla Kristjánsdóttir
- Sóknarprestur
Grenjaðarstaðarkirkja
Grenjaðarstaðarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1865. Hönnuður hennar var Árni Hallgrímsson forsmiður frá Garðsá. Árin 1964–1965 var kirkjan lengd um eitt gluggafag til austurs og þar komið fyrir kór og einnig lengd um eitt gluggafag til vesturs og þar komið fyrir forkirkju og turn smíðaður á hana. Hönnuður breytinganna var Bjarni Ólafsson trésmíðameistari. Risþak er á kirkjunni og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Kirkjan er klædd listaþili, en þök bárujárni og hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fimm sexrúðu gluggar með brík yfir og einn á framstafni yfir dyrum. Hringgluggi er ofarlega á kórbaki. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir með brík og bjór yfir.
Altaristaflan er máluð af óþekktun dönskum málara eftir altristöflu danska listmálarans Carl Bloch og sýnir huggarann Krist. Taflan var gefin kirkjunni árið 1885. Kirkjan á silfurkaleik, sem var smíðaður árið 1870 af Indriða Þorsteinssyni gullsmið á Víðivöllum. Þá á kirkjan silfurpatínu með áletrun á latínu. Prédikunarstóllinn er með ártalinu 1797. Hann var endurmálaður árið 1965 af Grétu Björnsson. Skírnarfonturinn er úr ljósum við, útskorinn af Jóhanni Björnssyni myndskera á Húsavík árið 1965. Í kirkjunni er grafíkmynd frá árinu 1995 eftir Þorgerði Sigurðardóttur frá Grenjaðarstað, unnin með hliðsjón af altrisklæði úr Grenjaðarstaðarkirkju frá 14. öld, sem segir sögu heilags Marteins og varðveitt er á Louvre safninu í París. Klukkur Grenjaðarstaðarkirkju eru á ramböldum í klukknaportinu. Þær eru frá árunum 1663 og 1740.

- Þorgrímur G. Daníelsson
- Sóknarprestur