
- Gunnar Jóhannsson
- Prestur

Stokkseyrarkirkja er friðlýst timburkirkja frá árinu 1886. Hönnuður hennar var Jón Þórhallason forsmiður. Þak kirkjunnar er krossreist, upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþaki og mjór stallur undir. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkjunnar eru fjórir gluggar með T-laga póstum og einn á hvorri hlið kórs. Í þeim eru tveir þriggja rúðu rammar undir þverpósti en þverrammi að ofan með bogarimum. Á framstafni yfir dyrum eru þrír sex rúðu póstagluggar, miðglugginn er sjónarmun stærri en hinir tveir. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi yfir með bogarimum.
Altaristaflan kom í kirkjuna árið 1857. Taflan sýnir himnaför Krists og er líklega dönsk. Skírnarfonturinn er úr eik og var skorinn út af Jóhanni Björnssyni. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri, sem gerð voru í Kaupmannahöfn árið 1857. Sjö radda pípuorgel af gerðinni Davis var sett upp í kirkjunni og tekið í notkun árið 1964. Kirkjuklukkurnar eru frá miðri 18. öld og eru úr kopar.


