- Erla Björk Jónsdóttir
- Prestur
Tjarnarkirkja í Svarfaðardal
Tjarnarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1892 og 1893. Hönnuður hennar var Jón Stefánsson forsmiður frá Dalvík og hugsanlega einnig Gísli Jónsson forsmiður frá Hofi sem að mestu vann innansmíð. Hvelfing var smíðuð í kirkjuna árið 1897.
Í öndverðu voru þök klædd pappa en þau voru klædd bárujárni um 1905–1909. Þakið er krossreist en risþak á stöpli, hvorttveggja klædd bárujárni. Kirkjan er klædd láréttum strikuðum borðum sem felld eru milli lóðréttra stafa við glugga. Strikað kverkborð er undir þakskeggi og hornborð með súluhöfðum á kirkju. Hún stendur á steinhlöðnum sökkli.
Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með tveimur þriggja rúðu römmum og um þá faldar og vatnsbretti, hið neðra stutt kröppum, og einn á framhlið stöpuls með bjór yfir. Tveir litlir fjögurra rúðu gluggar eru á framstafni kirkju hvorum megin stöpuls. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og stórstrikaður bjór yfir studdur kröppum og hálfsúlum.
Altaristaflan er dönsk frá árinu 1818, olíumálverk á tré, sem sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfurpletti, sem komu i kirkjunar rétt eftir 1892. Skírnarfonturinn er úr eik með brenndri leirskál, smíðaður af Tryggva Samúelssyni og Guðmundi Þorsteinssyni, sem skar hann út. Kristján Eldjárn, sem þá var þjóðminjavörður, hannaði fontinn. Klukkur Tjarnarkirkju er frá árunum 1701 og 1702.

- Oddur Bjarni Þorkelsson
- Sóknarprestur