Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Aðalgötu, 420 Súðavík
Bílastæði
Salerni
Streymi
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 150
Sókn
Súðavíkursókn

Súðavíkurkirkja

Súðavíkurkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1899. Kirkjan var flutt inn tilsniðin frá Noregi og reist á Hesteyri árið 1899. Hönnuður hennar er ókunnur, en yfirsmiður var Olaf Nielsen smiður. Þegar kirkjan var smíðuð á Hesteyri var hún án kórútbyggingar og ferstrendur turn með píramítaþaki var upp af framstafni. Hesteyrarkirkja var tekin niður og flutt til Súðavíkur. Súðavíkurkirkja var smíðuð upp úr henni árið 1962. Var kirkjunni þá breytt verulega að innan og forkirkjuturn smíðaður í stað þakturns. Hönnuður breytinganna var embætti Húsameistara ríkisins.

Kór var smíðaður við kirkjuna árið 1988. Elísabet Gunnarsdóttir arkitekt teiknaði viðbygginguna. Tvískiptur turn er við framstafn kirkjunnar. Á stöpli er risþak og á því mjór ferstrendur turn með krossreistu þaki. Hleri er fyrir hljómopi á hvorri turnhlið. Yfir kirkju og kór eru krossreist þök og gaflþak upp af kórbaki. Kirkjan er klædd láréttum plægðum borðum, en þök bárujárni og stendur á steinsteyptum sökkli. Kjallari er undir kór. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar með átta rúðum en á hvorri hlið kórs er hár og mjór gluggi. Hvorum megin á stöpli er gluggi og annar á framhlið uppi yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð.

Altaristaflan er olíuþrykk af málverki eftir erlendan listmálara og sýnir Krist á bæn í Getsemane. Hún var gefin kirkjunni árið 1963. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, enskir smíðisgripir, sem voru gefnir kirkjunni árið 1963. Skírnarfonturinn er úr ljósri eik og er erlendur gripur sem var gefinn kirkjunnu árið 1963. Klukkur Súðavíkurkirkju komu báðar úr Hesteyrarkirkju. Önnur var steypt í Glasgow árið 1899, hin er leturlaus.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Fjölnir Ásbjörnsson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Hildur Inga Rúnarsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Magnús Erlingsson
  • Prófastur Vestfjarðaprófastdæmis