
- Ása Laufey Sæmundsdóttir
- Prestur

Háteigskirkja var vígð þann 19. desember árið 1965 á fjórða sunnudegi í aðventu. Kirkjan er hvítmáluð að utan. Kopar er á þaki og þar eru fjórir turnar. Tveir þeir vestari bera klukknaport, í þeim eru samtals fjórar klukkur, sem bera hljómana b,a,c,h. ein í norðurturni og þrjár í þeim syðri. Efst á hverjum turni er kross. Gengið er upp nokkrar tröppur lagðar skiffóhellum inn í kirkjuna, handrið er á tveimur stöðum, frístandandi, og eitt meðfram vegg í suður. Í norður upp við kirkjuna liggur braut fyrir hjólastóla út á bílastæði fatlaðra. Aðgengi fatlaðra er gott inn í kirkjuna, hins vegar er ekki salerni fyrir fatlaða í kirkjunni og ekki geta þau sem eru í hjólastólum komist hjálparlaust upp að altarinu. Í kirkjunni eru sæti eru fyrir u.þ.b. 330 manns.
Í kirkjunni er þýskt pípuorgel frá árinu 1973, smíðað af Karl Schuke. Það er sjö radda, tveggja borða með fótspili og svelli, staðsett í „norðurkrossarmi“ kirkjunnar. Þá er Kawai flygill í kirkjunni. Í suðurkrossarmi er altarismyndin María, móðir Guðs á jörð. Hún er gerð eftir frumgerð Benedikts Gunnarssonar, listmálara, færð í mósaik af Hans Mayerische Hofkunstanstalt í Munich í Þýskalandi og sett upp af þeim árið 1992. Prédikunarstóllinn er kantaður úr palisander með þremur eirlituðum jafnarma smárakrossum. Kirkjan á kaleik, patínu, oblátubauk og vínkönnu. Auk þess á kirkjan kaleik, patínu og oblátubauk og 150 sérbikara. Kórmyndin er eftir Benedikt Gunnarsson, myndlistamann.Hún heitir Krossinn og ljós heilagrar þrenningar. Hún var færð í mósaik af Hans Mayerische Hofkunstanstalt í Munich í Þýskalandi og sett upp af þeim árið 1988. Skírnarfonturinn er úr grásteini gerður af Sigurði Helgasyni í Steinsmiðjunni eftir teikningu Halldórs H. Jónssonar. Silfurskálin er gerð af Jóni Kaldal og er með ígreyptum steinum úr Glerhallarvík. Hátalarakerfið er gott í kirkjunni, í henni eru hljóðnemar, bæði þráðlausir og á fæti.
Vesturhluti hússins er safnaðarsalur. Þar er hægt að taka á móti u.þ.b. 130 manns í sæti við borð.Veislueldhús er til staðar og búnaður til að taka á móti þeim fjölda í mat eða kaffi. Í salnum eru einnig góð hljómflutningstæki og flygill.
Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson

