Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Bakka, 604 Hörgársveit
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 40

Bakkakirkja

Bakkakirkja í Öxnadal er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1842-1843. Hönnuður hennar var Þorsteinn Daníelsson forsmiður á Skipalóni. Forkirkja var reist við kirkjuna árið 1910. Þök kirkjunnar eru krossreist og klædd bárujárni. Kirkjan er klædd slagþili en stöpull láréttri vatnsklæðningu og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með miðpósti og tveimur þriggja rúðu römmum, aðrir tveir eru á kórbaki og einn á hvorri hlið stöpuls. Níu rúðu gluggi er efst á kórstafni og sex rúðu gluggi á vesturstafni stöpuls uppi yfir dyrum.

Fyrir dyrum er spjaldahurð. Altaristaflan er dönsk frá árinu 1702. Á miðtöflunni er krossfestingarmynd. Á öðrum vængnum er mynd af Móse með lögmálstöflurnar, á hinum er mynd af Kristi með jarðarhnöttinn. Í kórgafli er máluð glermynd í glugga, líklega frá 16. öld. Hún sýnir Krist húðstrýktan. Kirkjan á kaleik sem smíðaður var af Friðfinni Þorlákssyni gullsmið á Akureyri.

Patínan var smíðuð af Símoni Sigurðssyni Bech, gullsmið sem bjó um skeið á Bakka. Prédikunarstóllinn var smíðaður og málaður af Illuga Jónssyni bónda og listamanni í Nesi í Höfðahverfi árið 1703. Skírnarfonturinn er úr tré frá árinu 1965, teiknaður og útskorinn af bræðrunum Kristjáni og Hannesi Vigfússonum Í Litla Árskógi. Klukkur Bakkakirkja eru frá árunum 1702 og 1797.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Erla Björk Jónsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Oddur Bjarni Þorkelsson
  • Sóknarprestur