Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Miðfelli, 781 Höfn í Hornafirði
Símanúmer
894 5614
Vefsíða
www.bjarnanesprestakall.is
Facebook
www.facebook.com/bjarnanesprestakall
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 45
Sókn
Hofssókn

Hoffellskirkja

Hoffellskirkja er bændakirkja, en var kirkjustaður um aldir. Árið 1981 endurbyggðu ábúendur kirkjuna frá grunni. Kirkjan stendur á gamla grunninum og er sömu stærðar og sú sem niður var tekin, eða um 32 fermetrar. Við endurbyggingu kirkjunnar var gólf og sökkull steyptir og þak kirkjunnar klætt bárujárni.

Hoffellskirkja er timburkirkja sem rúmar 45 manns. Plægður panell á veggjum og í lofti milli sperra, sem eru fjórar auk stafnsperra. Kirkjan er klædd að utan, standandi klæðningu úr furu. Járn er á þaki. Tveir gluggar eru á suðurhlið, hvor með fjórum rúðum. Enginn að norðan, en á stafni yfir útidyrum er gluggi.

Altaristaflan er olíumálverk og sýnir Maríu með barnið, í umhverfi Hoffells, þar sem sólargeislar sindra í silfurbergi. Í baksýn er Hoffellsbær. Myndina málaði Áki G. Gränz og er gjöf hans til kirkjunnar, til minningar um góð kynni við Hoffell. Kirkjan á kaleik og patínu úr gömlu kirkjunni. Auk ofangreindra muna er að finna margt fallegt handverk er eftir heimamenn í kirkjunni.

Skírnarfonturinn var gerður úr tré árið 1989 af Halldóri Sigurðssyni í Miðhúsum. Fangamark Krists er skorið í fontinn og hinum megin mynd af dúfu. Einnig er eftirfarandi áletrun skorin á skírnarfontinn: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.” Kristalsskál er notuð sem skírnarskál og situr ofan á fontinum.

Prédikunarstóllinn er úr gömlu kirkjunni. Orgelharmóníum stendur við dyr vinstra megin þegar gengið er inn. Trékross er á burst og þar undir, yfir dyrum, hangir klukkan úr gömlu kirkjunni í Hoffelli.

Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu prestakallsins.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Gunnar Stígur Reynisson
  • Sóknarprestur