
- Kristín Þórunn Tómasdóttir
- Sóknarprestur

Úthlíðarkirkja í Biskupstungum er bændakirkja. Hún var vígð þann 9. júlí árið 2006. Veg og vanda af byggingunni hafði Björn Sigurðsson, ferðaþjónustubóndi í Úthlíð, en Gísli Sigurðsson, bróðir hans, hannaði kirkjuna ásamt Jóni Ólafi Ólafssyni arkitekt. Í kaþólskum sið voru kirkjur staðarins helgaðar Maríu guðsmóður og voru útkirkjur frá prestssetrinu í Laugardal, þar til þær urðu útkirkjur frá Torfastöðum með lögum árið 1880. Kirkjunni var þjónað frá Torfastöðum og Skálholti til 1963. Lengi var þjónað í stofunni í Úthlíð eftir að kirkjan fauk árið 1936. Nýja kirkjan er hátíðleg og falleg og blasir víða við í nágrenninu. Hún var reist árið 2005-2006 í minningu Ágústu Ólafsdóttur, eiginkonu Björns Sigurðssonar bónda í Úthlíð.
Altaristöfluna málaði Gísli Sigurðsson. Viðfangsefnið var Maríumynd vegna þess að í Úthlíð hafði verið Maríukirkja fyrr á öldum. Eins og jafnan er gert með Maríumyndir, er hún staðsett á kirkjustaðnum með útsýni inn til fjalla. Portrett af Ágústu Ólafsdóttur, eiginkonu Björns Sigurðssonar, er á hliðarvegg. Hana málaði Baltasar Samper. Rafmagnsorgel er í kirkjunni. Kirkjuklukkurnar eru frá árinu 1742.
Ljósmynd tók Jón Grétarsson.

