
- Edda Hlíf Hlífarsdóttir
- Prestur

Þingeyrakirkja eða Þingeyraklaustuskirkja er friðlýst steinhlaðin kirkja, sem byggð var árið 1864. Hönnuður hennar var Sverrir Runólfsson steinsmiður. Í öndverðu var hella á þökum en árið 1959 voru þau klædd eir. Þak kirkjunnar er krossreist og gaflsneitt yfir kór. Veggir eru hlaðnir úr ótilhöggnu eða lítt höggnu steinlímdu grjóti, sökkulbrún er neðarlega á vegg, raðsteinsbogar yfir gluggum, dyrum og hljómopum og brúnir eru undir þakskeggi. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar og einn á hvorri hornsneiðingu. Þeir eru bogadregnir að ofan, gerðir úr steypujárni og í hverjum þeirra eru 100 rúður. Efri hluti turns gengur inn á kirkjuþak sem nemur veggjarþykkt vesturstafns. Á honum er lágreist píramítaþak, eirklætt eins og þak kirkju. Ofarlega á hverri hlið turns er bogadregið hljómop með hlera fyrir en hringgluggi á framhlið uppi yfir dyrum.
Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bogagluggi yfir og inn af þeim er forkirkja í turninum. Í kirkjunni er altarisbrík úr alabastri, sem mun vera gerð í Nottingham í Englandi um 1470. Vængirnir eru glataðir, en á miðhlutqanum er sýnt píslarvætti Krists. Umggerð og lágmynd yfir brík, sem sýnir upprisu Krists er eftir Guðmund Pálsson myndskera 1830-1884. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem smíðuð voru í Kaupmannahöfn árið 1724. Prédikunarstóllinn er sextrendur með himni yfir, gefinn kirkjunni árið 1696. Hann er útlend smíð og skreyttur útskornum standmyndum af Kristi og guðspjallamönnunum. Skírnarfonturinn er áttstrendur með himni yfir. Hann var gefinn til kirkjunnar árið 1697. Á hliðar hans eru málaðar myndir af atburðum úr Biblíunni. Skírnarfatið var smíðað í Kaupmannahöfn árið 1693. Klukkur Þingeyrakirkju eru frá árunum 1911 og 1834.

