Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Borgarvegi, 310 Borgarnesi
Símanúmer
437-1953
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 60
Sókn
Borgarnessókn

Borgarkirkja

Borgarkirkja í Borgarprestakalli er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1880–1881. Hönnuður hennar var Jörundur Þorsteinsson forsmiður. Í upphafi var kirkjuþakið timburklætt og bikað, en timburklæddir veggirnir málaðir. Setuloft var yfir framkirkju. Árið 1891 var forkirkja smíðuð við kirkjuna og þök járnklædd. Árið 1908 voru kirkjuveggir klæddir bárujárni nema framstafn og forkirkja voru sem járnklædd um 1925.

Árið 1951 var kirkjan flutt til vesturs, sett á steinsteyptan sökkul og henni snúið þannig að framstafn snýr mót vestri. Árið 1952 voru settir bogadregnir gluggar í kirkjuna og veggir múrhúðaðir. Í kringum árið 1970 voru veggir klæddir trapisumótuðum stálplötum. Árin 2001–2002 var kirkjan færð að mestu til upprunalegs horfs að utan.

Þakið er krossreist, klætt bárujárni, og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Hann stendur á lágum stalli. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkjunnar eru fjórir póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn heldur minni á framstafni. Fyrir kirkjudyrum er spjaldahurð og þvergluggi og brík yfir.

Altaristaflan er olíumálverk eftir enska listamanninn W. G. Collingwood og sýnir Jesú blessa börnin. Hún var máluð á árunum 1897-1898. Kirkjan á silfurkaleik og patínu smíðað af danska silfursmiðnum Ludvig T. V. Berth árið 1897. Auk þess á kirkjan silfurkaleik og patínu, sem eru nýlegir innfluttir gripir. Skírnarfonturinn er úr beyki, smíðaður árið 1977 af Þórði Vilmundarsyni hagleiksmanni á Mófellsstöðum í Skorradal. Skírnarskálin er úr brúnleitum leir með hvítum, gulum og rauðum tungum. Skálina gerði Sigrún Jónsdóttir kirkjulistakona. Í kirkjunni eru tvær klukkur, önnur frá árinu 1749, hin er án áletrunar.

Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Heiðrún Helga Bjarnadóttir Back
  • Sóknarprestur