Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Skinnastöðum, 671 Kópaskeri
Bílastæði
Safnaðarheimili
Streymi
Kirkjugarður
Fjöldi: 60
Sókn
Skinnastaðarsókn

Skinnastaðarkirkja

Skinnastaðarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1854. Hönnuður hennar var Þórarinn Benjamínsson forsmiður frá Akurseli í Öxarfirði. Arngrímur Gíslason málari skrautmálaði kirkjuna að innan árið 1863 og þá voru kórstafir og kórbogi settir í kirkjuna. Þakið var pappalagt árið 1880, þakturn rifinn af kirkjunni og söngloft smíðað í hana árið 1900. Árið 1954 var nýr turn smíðaður á hana. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með íbjúgu píramítaþaki.

Veggir eru klæddir lóðréttri strikaðri og plægðri borðaklæðningu, þak bárujárnsklætt, en turn klæddur sléttu járni og kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir 12 rúðu gluggar, aðrir þrír á kórbaki og einn á gaflhlaði framstafns. Á hvorum hliðarvegg turns er tveggja rúðu gluggi. Fyrir kirkjudyrum er spjaldahurð.

Altaristaflan er eftirmynd af kvöldmáltíðarmynd Leonardo da Vinci, máluð af óþekktum málara árið 1848. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir smíðisgripir frá árinu 1799. Skírnarfonturinn er úr eik, útskorinn af Ágústi Sigurmundssyni myndskera árið 1954. Klukkur Skinnastaðarkirkju eru tvær. Önnur er frá árinu 1824, hin er líklega eldri.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Magnús G. Gunnarsson
  • Prestur