Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Hólum, 551 Sauðárkróki
Símanúmer
453-6300
Kirkjugarður
Hljóðkerfi
Aðgengi
Bílastæði
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Fjöldi: 150
Sókn
Hólasókn

Hóladómkirkja

Hóladómkirkja er friðlýst steinhlaðin kirkja, sem byggð var árið 1763. Hönnuður hennar var Laurids de Thurah hirðarkitekt í Danmörku. Samkvæmt Biskupasögum lét Oxi Hjaltason fyrst reisa kirkju að Hólum um miðja 11. öld. Kirkja og stöpull eru undir krossreistu eirklæddu þaki. Veggir kirkju eru múrsléttaðir en rauð sandsteinshleðsla stöpuls sýnileg. Sökkulbrún er neðarlega á veggjum og múrbrúnir undir þakskeggi. Á norðurhlið kirkju eru sjö gluggar en sex á suðurhlið og dyr á miðjum suðurvegg, frúardyr, og fyrir þeim vængjahurðir. Í gluggum er miðpóstur og tveir tólfrúðu rammar. Á kórbaksstafni er lítill gluggi með sex rúðum. Einn gluggi er á hvorri hlið stöpuls og tveir á framhlið, sinn hvorum megin dyra. Í þeim er þverpóstur og tveir níurúðu rammar. Fimm hljómop eru á stöplinum, þrjú á framstafni, en eitt á hvorri hlið yfir glugga og hringop efst á stafninum. Fyrir kirkjudyrum er okahurð klædd tígulsettum panelstöfum og yfir henni hvít marmaratafla með áletrun til heiðurs Friðriki V konungi Danmerkur og Íslands sem stóð fyrir byggingu dómkirkjunnar.

Í stöpli er klukknastóll og tvær klukkur í ramböldum. Þvergangur er fyrir miðri kirkju og skírnarsár á honum norðan megin gegnt frúardyrum. Kórþil er á mörkum framkirkju og kórs, þiljað neðanvert en með randskornum og gegnskornum grindum ofanvert. Prédikunarstóll með himni yfir er framan kórþils sunnan megin nærri frúardyrum. Fyrir miðjum kórgafli er steinhlaðið altari, randskornar grindur í grátum framan þess, en yfir því vönduð altarisbrík. Altarisbrík Hóladómkirkju er útskorin úr viði, lögð gipsi, máluð og gyllt.

Talið er að Jón Arason biskup hafi fært Hóladómkirkju bríkina. Skrautvirkið er úr fuglakirsiberjaviði. Á nyrðri vængnum eru dýrlingar og postular. Í miðbríkinni til hliðanna eru fjórar helgar konur. Á miðri miðbríkinni er krossfestingarmynd. Á syðri vængnum eru dýrlingar og postular. Yfir frúardyrum er gömul altaristafla úr alabastri, sem sýnir píslarvætti Krists. Bríkin er líklega gerð í Nottingham í Englandi um 1470. Skírnarsár er útskorinn af Guðmundi Guðmundssyni frá Bjarnastaðahlíð árið 1674. Hann er úr gráu klébergi. Á norðurvegg hangir róðukross, sem er útlent verk frá fyrri hluta 16. aldar. Kirkjan á tvo silfurkaleika og tvær silfurpatínur frá ofanverðri 13. öld. Gripirnir eru sennilega enskir.

Í kirkjunni eru nú tvær klukkur, báðar ungar. Klukkuturn var byggður við kirkjuna árið 1950. Í honum eru þrjár klukkur, jafngamlar turninum. Í turninum er mósaik listaverk eftir Erró, sem sýnir Jón Arason.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Halla Rut Stefánsdóttir
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Sigríður Gunnarsdóttir
  • Prófastur Húnavatns- og Skagafjarðarprófastdæmis
Mynd sem tengist textanum
  • Anna Hulda Júlíusdóttir
  • Djákni
Mynd sem tengist textanum
  • Margrét Rut Valdimarsdóttir
  • Héraðsprestur Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
Mynd sem tengist textanum
  • Gísli Gunnarsson
  • Vígslubiskup á Hólum