
- Kristín Þórunn Tómasdóttir
- Sóknarprestur

Mosfellskirkja er friðlýst timburkirkja, byggð árið 1848. Hönnuður hennar var Bjarni Jónsson, snikkari. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af vesturstafni er turn með risþaki. Bogadregin hljómop með hlera eru á þremur turnhliðum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með tveimur sex rúðu römmum en einn heldur minni á framstafni. Kirkjan er klædd listaþili, þök bárujárni og stendur hún á steinsteyptum sökkli.
Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir með okum og spjaldsett innri hurð og strikuð brík yfir. Altaristaflan er dönsk og er frá árinu 1875, en málarinn er óþekktur. Hún sýnir fæðingu Jesú og á undirbrík hennar stendur: „Yður er í dag frelsari fæddur.“ Kirkjan á kaleik og patínu úr tini. Þetta eru danskir gripir frá árinu 1656, eftir óþekktan smið. Prédikunarstóllinn er eftir Ámunda Jónsson, smið í Syðra Langholti, og er hann frá árinu 1799. Í spjöldunum eru myndir guðspjallamannanna. Skírnarfontinn skar Guðbjörn Ólafsson bóndi í Skálabrekku. Hann er minningargjöf um feðga frá Hömrum, sem drukknuðu í Apavatni árið 1974. Kirkjuklukkurnar eru tvær, önnur frá árinu 1730, en aldur hinnar er óviss.
Ljósmynd tók Jóna Þórunn Ragnarsdóttir.

