
- Hafdís Davíðsdóttir
- Sóknarprestur
Á Draflastöðum var bændakirkja um aldir, hin síðasta þeirra reist um 1840. Söfnuðurinn tók við kirkjunni árið 1913 og ákvað að reisa sér nýja kirkju og vanda verulega til, og hafa hana úr steini. Í þetta verk var ráðist á árunum 1926-1928, en Einar Jóhannesson frá Akureyri teiknaði kirkjuna. Yfirsmiður var Kristján Rögnvaldsson frá Fífilgerði í Eyjafirði. Var kirkjan fullgerð að utan sumarið 1926, og þá um veturinn var unnið við frágang kirkjunnar og hún síðan vígð vorið 1927. Þeir menn sem unnu fínna tréverk og máluðu kirkjuna voru Jón Ferdinadsson bóndi í Skógum og Baldur Helgason smiður frá Grund í Höfðahverfi. Kirkjan er turnlaus, hvítmáluð með rauðu þaki. Þrír oddbogagluggar eru á hvorri hlið kirkjunnar og hriglaga gluggi yfir kirkjudyrum.
Altaristaflan er frá árinu 1702. Hún er úr gömlu kirkjunni merkt með stöfunum SES. Predikunarstóllinn er frá árinu 1701. Hann er einnig úr gömlu kirkjunni og merktur SES. Kirkjan á kaleik og patínu sem Indriði Þorsteinsson smíðaði um miðja 19. öld. Skírnarfonturinn er úr málmblöndu. Á fæti hans er upphleypt skraut. Tvær kirkjuklukkur eru ofan við kirkjudyr Draflastaðakirkju. Önnur er forn að lögun, hin er áletruð P. Petersen i Kiöbenhavn 1806.
