
- Heiðrún Helga Bjarnadóttir Back
- Sóknarprestur

Akrakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árin 1899–1900. Hönnuður hennar var Guðmundur Jakobsson forsmiður. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er áttstrendur burstsettur turn með áttstrenda spíru.
Oddbogadregið hljómop er á framhlið turns og undir turni er breiður stallur. Kirkjan er bárujárnsklædd en turn og turnþök klædd sléttu járni og hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír smárúðóttir gluggar úr steypujárni, oddbogadregnir að ofan, einn á hverri hinna fjögurra hornsneiðinga, einn á framstafni kirkju og að auki hringgluggi yfir honum. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og oddbogagluggi yfir þeim.
Altaristaflan er olíumálverk eftir danska listmálarann Christian Bang og sýnir Krist krossfestan og Jóhannes krjúpandi við krossinn. Taflan var gefin kirkjunni árið 1922. Kirkjan á silfurkaleik og patínu sem munu vera íslensk smíð frá síðari hluta 19. aldar. Þá á kirkjan annan silfurkaleik og patínu. Patínan var smíðuð af Þorgrími Tómassyni 1782-1849 gullsmið á Bessastöðum, en óvíst er hver smíðaði kaleikinn. Skírnarfonturinn var smíðaður árið 1950 af Bjarna Kjartanssyni myndskera í Reykjavík. Skírnarskálin er úr grænleitum leir með krossmarki á botni frá árinu 1950. Þá á kirkjan skírnarfat úr tini frá miðri 18.öld. Í Akrakirkju eru tvær klukkur. Sú stærri er frá árinu 1673, hin er frá árinu 1734.
Heimildir eru fyrir kirkju að Ökrum frá kristnitöku, eða um 1200.
