- Ingibjörg Jóhannsdóttir
- Djákni Austurlandsprófastsdæmi

Reyðarfjarðarkirkja
Reyðarfjarðarkirkja er steinsteypuhús. Hún var byggð árið 1910, afhent söfnuðinum þann 15. febrúar árið 1911 og vígð 18. júní sama ár.
Þakið er krossreist, upp af vesturstafni er lágur stallur undir bárujárnsklæddum turni með hárri turnspíru sem gengur út undan sér neðst. Kirkjan er múrhúðuð en þök klædd bárujárni. Vindskeiðar, skreyttar raðbogum, eru efst á göflum uppi undir þakbrúnum kirkju og þakskeggi turns. Á hvorri hlið kirkjunnar eru þrír bogadregnir gluggar með krosspósti og fjórum rúðum. Á framstafni eru fimm gluggar, einn sömu stærðar yfir kirkjudyrum en minni gluggi hvorum megin hans og kirkjudyra. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir. Forkirkja er skilin frá framkirkju með þvervegg. Úr henni er gengið um stiga til sönglofts yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju.
Skrúðhús er sunnan megin og gengið um það í predikunarstól, en gangur norðan megin að tengibyggingu milli kirkju og safnaðarheimilis. Kirkjan tekur um 100 manns í sæti og var arkitekt hennar Rögnvaldur Ólafsson. Í turni eru tvær klukkur úr Hólmakirkju. Þaðan er einnig altaristafla, númeratafla og kaleikur með ártalinu 1708, og átta arma ljósahjálmur, einnig frá Hólmakirkju. Altaristaflan sýnir uppstigningu Krists. Málarinn er óþekktur, en líklega er taflan dönsk. Hún var hreinsuð árið 1984. Kaleikur frá 1708 tilheyrir kirkjunni, úr silfri en gullhúðaður að innan. Hann er áletraður: I N. R. I. auk annarar áletrunar. Tilheyrandi diskur, patína, einnig áletraður. Skírnarfontur, gerður af Ríkharði Jónssyni, er minningargjöf um Unu Sigríði Jónsdóttur og Gunnar Bóasson, frá börnum þeirra, gefin árið 1946.
Gamla orgelið var selt og keypt nýtt rafmagnsorgel af Allen-gerð. Mun það hafa verið árið 1995. Glæsilegt safnaðarheimili var byggt við kirkjuna og vígt árið 1994. Jafnframt var steyptur kór, sem átti að opna síðar þegar efni rýmkuðust. Árið 1999 var ráðist í það verk og fenginn til þess Jón Kristinn Beck, trésmíðameistari á Reyðarfirði. Þá var smíðaður nýr prédikunarstóll, altari og altarisgrindur með knéfalli, allt úr eik. Um leið var opnað og tengt á milli safnaðarheimilis og kirkju og snyrtingar í safnaðarheimili fullgerðar. Hönnuður var Björn Kristleifsson arkitekt. Á árunum 1975–1976 voru smíðaðir nýir bekkir í kirkjuna og hún máluð innan, af Jóni og Grétu Björnsson.
- Arnaldur Arnold Bárðarson
- Prestur

- Benjamín Hrafn Böðvarsson
- Prestur
- Jóna Kristín Þorvaldsdóttir
- Sóknarprestur