
- Halla Rut Stefánsdóttir
- Sóknarprestur

Silfrastaðakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1896. Hönnuður hennar var Þorsteinn Sigurðsson forsmiður. Þak kirkjunnar er krossreist upp af hliðarveggjum og tengt stöpli en gaflsneitt yfir kór og hvorum megin stöpuls. Kirkjan er klædd sléttu járni og stendur á steinhlöðnum steinsteyptum sökkli. Á sex hliðum kirkju eru bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar og einn minni á framhlið stöpuls. Stöpull er mjór að neðan en efri hluti hans breiðari og gengur inn á þak kirkju. Á honum er áttstrent þak og á því áttstrendur turn með átta stoðum sett burstlaga opum undir áttstrendri spíru. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð og bogagluggi yfir.
Altaristaflan er eftir Þorstein Guðmundsson frá árinu 1853 og sýnir Maríu Magdalenu og Maríu Guðsmóður við kross Krists á Golgata. Kirkjan á silfurkaleik og patínu og aldur þeirra er óviss. Kaleikurinn er talinn vera íslensk smíð. Þá á kirkjan skírnarfat úr tini frá árinu 1761. Tvær kirkjuklukkur eru í Silfrastaðakirkju. Sú eldri er frá árinu 1645, ekki er vitað um aldur hinnar. Þegar þetta er skrifað er kirkjan í viðgerð á Sauðárkróki.


