
- Jarþrúður Árnadóttir
- Prestur

Kirkjubæjarkirkja er timburhús. Hún var byggð á árunum 1851-1852. Hönnuður kirkjunnar var Þorgrímur Jónsson snikkari. Einnig er talið að Jón Jónsson frá Vogum í Mývatnssveit gæti hafa hannað kirkjuna. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með íbjúgu pýramídaþaki. Hljómop með hlera er á hvorri turnhlið. Kirkjan stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Hún er klædd reisifjöl, þak bárujárni og turnþak sléttu járni. Kirkubæjarkirkja var færð í sem næst upprunalegt horf árið 1980 og stóðu þær framkvæmdir allt til ársins 1992. Þær voru á vegum Þjóðminjasafnsins og komu þar einkum við sögu Hörður Ágústsson og Þór Magnússon.
Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar, þrír á framstafni og tveir á kórbaki. Í þeim er miðpóstur og tveir fjögurra rúðu rammar, að auki er einn póstgluggi með þriggja rúðu römmum, efst á stafni kórbaks. Hlerar eru fyrir gluggum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir til hlífðar innri spjaldsettri hurð og bjór yfir. Kórdyrabogi er milli tvískiptra, ferstrendra kórstafa við bríkur innstu bekkja. Í kórþili sunnan megin eru stóldyr, með stöfum og boga yfir, fyrir prédikunarstóli framan kórþils. Yfir kirkju er risloft opið upp í rjáfur, klætt skarsúð á sperrur. Í upphafi var þak kirkjunnar timburklætt en síðar var það lagt bárujárni. Forkirkja var þiljuð af framkirkju um 1930.
Prédikunarstóll Kirkjubæjarkirkju er líklegast frá 16. öld, danskur, og mikil gersemi. Á honum eru myndir af postulunum Páli og Pétri, Lúkasi guðspjallamanni og Davíð konungi. Einnig prýða stólinn myndir af gefendum stólsins, sem voru dönsku konungshjónin, þau Friðrik II og Soffía. Altaristaflan er olíumálverk eftir danska málarinn Anker Lund og er frá 1894. Sýnir hún Krist upprisinn birtast Maríu Magdalenu við gröfina. Ljósahjálmur úr kopar mun vera frá 17. öld. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri frá síðari hluta 18. aldar eða fyrri hluta 19. aldar. Þá á hún einnig silfurhúðaða vínkönnu, og oblátuöskju í sama stíl, sem keypt var til kirkjunnar árið 1905. Norskt orgelharmóníum er í kirkjunni frá fyrri hluta 20. aldar. Minni kirkjuklukkan er frá árinu 1680, hin er leturlaus.


