- Sólveig Halla Kristjánsdóttir
- Sóknarprestur

Húsavíkurkirkja
Húsavíkurkirkja er friðlýst timburkirkja frá árinu 1907. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og húsameistari ríkisins. Kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Krossreist þak er á krossálmum og hár ferstrendur turn er í norðvesturhorni milli krossálma. Efst undir þakbrúnum kirkju og turns eru skammbiti, dvergur og skástoðir. Opið er milli þeirra á turni, en þiljað milli þeirra á kirkju. Turninn er burstsettur og á honum há ferstrend spíra með litlum kvisti ofarlega á hverri hlið. Í suðausturhorni er skrúðhús og bakinngangur. Þök eru bárujárnsklædd en turnþak klætt sléttu járni.
Veggir eru klæddir láréttri panelklæðningu á neðri hæð upp undir hæðarskilsband umhverfis kirkjuna, en lóðréttri panelklæðningu ofan þess. Á kirkjunni og turni eru smárúðóttir burstsettir gluggar. Ofarlega á stafni kórbaks eru þrír samlægir gluggar, en á hverjum hinna þriggja stafna krossarmanna eru þrír samlægir gluggar niðri en tveir uppi á stöfnunum. Á hliðarveggjum krossstúka er einn gluggi, tveir á austurhlið skrúðhúss og yfir þeim þrír litlir gluggar uppi undir þakskeggi og yfir bakdyrum. Þrír gluggar eru á turninum og burstsett hljómop efst en undir þeim tvö hæðarskilsbönd og milli þeirra hlerar með hringlaga opum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og burstsett skyggni yfir.
Altaristaflan er olíumálverk frá árunum 1930-1931 eftir Svein Þórarinsson listmálara og sýnir upprisu Lasarusar í þingeysku landslagi. Kirkjan á silfurkaleik og patínu sem smíðuð voru árið 1758 af Sigurði Þorsteinssyni gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn. Skírnarfonturinn er úr tré, útskorinn af Jóhanni Björnssyni myndskera á Húsavík árið 1957. Þá er einnig í kirkjunni ræðupúlt og ljósasúlur útskorin af Jóhanni Björnssyni árin 1938 og 1940. Kirkjuklukkur Húsavíkurkirkju eru tvær. Þær eru úr kopar og komu í kirkjuna árið 1953.

- Þorgrímur G. Daníelsson
- Sóknarprestur