
- Leifur Ragnar Jónsson
- Sóknarprestur

Guðríðarkirkja ber nafn Guðríðar Þorbjarnardóttur landkönnuðar, pílagríms og einsetukonu sem fædd var í kringum árið 980. Kirkjan stendur við Kirkjustétt 8a í Grafarholti og miðast nafn götunnar við það hlutverk hennar að vera heimreið sóknarkirkjunnar í hverfinu. Kirkjuna teiknuðu arkitektarnir Guðrún Ingvarsdóttir og Þórður Þorvaldsson, hjá Arkitektastofunni Arkþing. Kirkjan er hvítmáluð að utan, steypt upp á hefðbundinn hátt, múrhúðuð og með svörtum gluggum sem eru álprófílar á trégrind. Þakið er flatt og viðsnúið. Kirkjubygginguna annaðist verktakafyrirtækið Sveinbjörn Sigurðsson og var Finnur Jóhannesson yfirsmiður kirkjunnar. Verkfræðihönnun, þar með talinn hönnun hins flókna og fagra altarisglugga, þar sem allir gluggapóstar eru úr gleri, var í höndum Almennu verkfræðistofunnar.
Altarið er úr birki, hannað af Reyni Sýrussyni hönnuði, sem einnig sá um hönnun annarra innviða kirkjuskipsins eins og prédikunarstóls og skírnarfonts, en þessir gripir voru allir smíðaðir hjá Beyki ehf. Prédikunarstóll kirkjunnar er úr stuðlabergi sem geirnegld birkiplata hvílir á. Framan á stólnum er merki kirkjunnar sem er hannað af Björgu Vilhjálmsdóttur, grafískum hönnuði, og sýnir vínviðarteinung sem myndar kross, en teinungsfléttan vísar til fornrar íslenskrar útskurðarlistar. Kirkjan á Estonia flygil, sem smíðaður var árið 2006. Skírnarfontur kirkjunnar stendur við anddyri kirkjuskipsins. Sárinn er rennd birkiskál sem glerskál hvílir í og er glerskálin gerð af glerlistamanninum Jónasi Braga Jónassyni í Kópavogi.
Orgelið var smíðað hjá Björgvin Tómassyni orgelsmið. Það er 19 radda og prýða það fjórar vindhlöður. Mikill metnaður var lagður í hljóðhönnun kirkjunnar og var Ólafur Hjálmarsson, hjá Trivium, hljóðhönnuður hússins. Klukknaport kirkjunnar er staðsett austan við hana og er hægt að sjá efstu klukkuna sveiflast í turninum við upphafi og enda guðsþjónustu. Klukknaportið er fyrir þrjár klukkur, það er hvítmálað og steinsteypt. Klukkurnar eru steyptar í Belgíu hjá Clock-o-Matic. Á þær er grafin áletrun úr sálminum Dýrð í hæstum hæðum. Á stærstu klukkuna er letrað „Dýrð í hæstum hæðum,“ á miðklukkuna „Jörð það endurómar“ og minnsta klukkan ber yfirskriftina „Fagnandi hjörtu færa þakkargjörð “. Þessar þrjár áletranir standa fyrir þrjú svið sköpunarinnar, þ.e. hæstar hæðir, jörðina og fagnandi hjörtu mannanna.

