
- Kristín Þórunn Tómasdóttir
- Sóknarprestur

Stóru Borgarkirkja var flutt að Stóru Borg frá Klausturhólum í Grímsnesi árið 1931, en þar hafði verið kirkjustaður frá fyrstu tíð kristni í landinu. Kirkjan er steinsteypt með þremur gluggum á hvorri hlið og hringlaga glugga yfir kirkjudyrum. Á turni kirkjunnar eru gluggar á fjórum hliðum.
Altaristaflan sýnir upprisuna og er eftir Brynjólf Þórðarson. Skírnarfonturinn var útskorinn og smíðaður af Guðmanni Ólafssyni, frá Skálabrekku í Þingvallasveit. Kirkjan á kaleik og patínu og gamla oblátuöskju úr tré. Prédikunarstóllinn er á fæti og er í stíl við kirkjuveggi og kór. Orgelharmoníum er í kirkjunni og var það keypt árið 1984. Tvær kirkjuklukkur eru í kirkjunni. Önnur er ein elsta klukka á landinu, 700-800 ára gömul, að sögn Þórs Magnússonar, fyrrum þjóðminjavarðar. Yngri klukkan var gefin Klausturhólakirkju, af Eyjólfi Björnssyni presti á Snæfoksstöðum. Á hana er letrað ártalið 1738.
Ljósmynd tók Ólafur Sigurðsson.

