
- Halla Rut Stefánsdóttir
- Sóknarprestur

Miklabæjarkirkja er timburkirkja á steyptum grunni, og eru í henni sömu hlutföll og í torfkirkjum, sperrur og steyptir sökklar koma í stað hlaðinna útveggja. Kirkjan er byggð á árunum 1971-73 og vígð þann 3. júní það ár. Arkitekt hennar var Jörundur Pálsson og smiður Guðmundur Márusson frá Bjarnastöðum. Klukknaport er frístandandi.
Kirkjan er máluð í rauðbrúnum lit, þak hennar grænt, sperrur svartar og sökklar hvítir og á svo að sýnast að hún svífi mitt milli himins og jarðar. Á hvorri langhlið eru sjö opnanlegir gluggar, með fjórtán rúðum alls, og eru þeir settir í augnhæð. Gluggi með tveimur rúðum er ofan við kirkjudyr. Undir kirkjunni er kjallari, em nýtist sem safnaðarheimili.
Altari og skírnarfontur eru af íslenskum grásteini. Altaristaflan er bútasaumsmynd, sem konur í sveitinni saumuðu. Á henni eru ýmis kristin tákn, auk mynda úr lífi sveitunganna og landslagi í Skagafirði. Í kirkjunni er skírnarfat sem á stendur: Jesús sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín“. Kirkjan á kaleik og patínu. Mynd af Bertel Thorvaldsen hangir á vesturvegg kirkjuskips. Afi Bertels var prestur á Miklabæ, séra Þorvaldur Gottskálksson. Myndin er úr gifsi eftir Jens Urup, danskan listamann.
Ljósmynd tók Eysteinn Guðni Guðnason.


