
- Kristján Arason
- Sóknarprestur

Hlíðarendakirkja er friðlýst timburkirkja, byggð árin 1897-1898. Hönnuður var Gissur Ísleifsson smiður frá Kanastöðum í Landeyjum. Stöpullinn er ferstrendur og á honum flatt þak og handrið umhverfis. Á því stendur áttstrendur burstsettur turn með áttstrenda spíru.
Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar. Í þeim er T laga póstur með tveimur þriggja rúðu römmum neðan þverpósts en fjögurra rúðu bogaramma að ofan. Á hvorum stafni eru tveir gluggar heldur minni og tveir á framhlið stöpuls en sá efri án bogaramma. Yfir gluggum og dyrum er skrautverk og hæðarskilsband umhverfis kirkju og stöpul. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bogagluggi yfir.
Altari, skírnarfont og prédikunarstól smíðaði Sigurður Ólafsson forsmiður. Efst á kórgaflinum eru þrjú málverk eftir Ólaf Túbals, listmálara sem hann gaf kirkjunni árið 1952. Altaristaflan er eftirmynd töflu Carls Bloch í kirkjunni í Holbæk á Sjálandi og sýnir Krist blessa lítið barn. Taflan var keypt til Teigskirkju árið 1879 og flutt í Hlíðarendakirkju árið 1897. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri með gotnesku lagi. Nafn Solveigar Árnadóttur eiginkonu Eyjólfs Halldórssonar sýslumanns er letrað á kaleikinn. Kirkjan á einnig kaleik og patínu úr silfri smíðuð árið 1705 af Niels Johnsen. Kirkjuklukkur Hlíðarendakirkju eru frá 1740 og 1694.
