Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Auðkúlukirkjuvegur, 541 Blönduósi
Kirkjugarður
Bílastæði
Fjöldi: 50
Sókn
Auðkúlusókn

Auðkúlukirkja

Auðkúlukirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1894. Hönnuður hennar var Þorsteinn Sigurðsson forsmiður. Í öndverðu voru þök klædd sléttu járni og kirkjan stóð á steinhlöðnum grunni. Kirkjan var flutt um set frá vegi á núverandi stað árið 1971 og sett á steinsteyptan sökkul og þök klædd pappa. Árið 1994 voru þök klædd eir. Hönnuður breytinganna var Þorsteinn Gunnarsson arkitekt. Þak kirkjunnar er krossreist upp af hliðarveggjum og gaflsneitt yfir kór og framkirkju. Á miðju þaki er ferstrendur stallur og á honum áttstrent þak upp að áttstrendum opnum turni.

Hann er burstsettur, skreyttur laufskurði og á honum er há áttstrend spíra. Neðarlega á kirkjuþaki, upp af hverju horni, eru háar stoðir, ferstrendar neðst en rúnnaðar að ofan, og á þeim hnöttur með krossi og minni súlur með hnetti á burstum turns og spíru. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir vatnsklæðningu, kantskorið kverkband undir þakskeggi og þök eirklædd. Á sex hliðum kirkju er gluggi, hornsneiddur að ofan. Í þeim er T-laga póstur og tveir fjögurra rúðu rammar neðan þverpósts en rammi með afskorin horn að ofan og í honum þrjár þríhyrndar rúður. Kirkjudyr eru á austurgafli og fyrir þeim eru spjaldsettar vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri hurð. Framundan dyrum eru trétröppur með tveimur þrepum. Altaristaflan er eftir Andreas Taastrup frá árinu 1875 og sýnir Krist upprisinn birtast Maríu Magdalenu við gröfina.

Önnur altaristafla frá 18. öld er krossfestingarmynd. Hún er útskorin og máluð og er verk sr. Jóns Björnssonar, sem hélt staðinn frá 1752-1767. Kirkjan á silfurkaleik og patínu sem smíðuð voru af Helga Þórðarsyni d. 1828 silfursmið á Brandsstöðum. Í kirkjunni er gamalt skírnarfat úr eir. Klukkur Auðkúlukirkju eru tvær. Önnur er frá árinu 1755, hin er eldri.

Ljósmynd tók Sigurður Jónsson.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Edda Hlíf Hlífarsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Magnús Magnússon
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Margrét Rut Valdimarsdóttir
  • Héraðsprestur Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi