
- Hafdís Davíðsdóttir
- Sóknarprestur

Hálskirkja í Fnjóskadal er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1859-1860. Hönnuður hennar var Tryggvi Gunnarsson forsmiður og síðar bankastjóri. Í öndverðu var pappaþak á kirkjunni og veggir tjargaðir. Klukknaport úr timbri var smíðað framan við kirkjuna árið 1897. Þakið var bárujárnsklætt um 1910 og veggir fyrst málaðir að utan árið 1924. Þak kirkjunnar er krossreist og klætt bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinhlöðnum sökkli.
Á hvorri hlið kirkju og á framstafni er einn gluggi, en þrír á kórbaki. Í þeim er miðpóstur og tveir sexrúðu rammar, en strikuð brík yfir. Á þakinu sunnan megin er kvistgluggi með fjögurra rúðu ramma. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir. Yfir dyrum er bogadregin strikuð brík. Klukknaport er gegnt kirkjunni í kirkjugarðinum. Altaristaflan er olíumálverk frá árinu 1860 eftir danska málarann Johannes Jensen og sýnir Krist í garðinum Getsemane. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir smíðisgripir frá árinu 1741. Prédikunarstóllinn er með ártalinu 1726. Skírnarfonturinn var smíðaður af Aðalgeir og Sigurði Halldórssonum á Stórutjörnum árið 1960. Klukkur Hálskirkju eru á ramböldum í klukknaportinu. Þær eru báðar leturlausar.
