
- Edda Hlíf Hlífarsdóttir
- Prestur
Fimm árum eftir að gamla kirkjan á Melstað fauk í miklu suðaustanhvassviðri í janúar árið 1942 var ný kirkja vígð þann 8. júní árið 1947. Yfirsmiður kirkjunnar var Hjörtur Eiríksson frá Efri- Svertingsstöðum í Miðfirði. Hún er steinsteypt og rúmar um 100 manns í sæti. Prédikunarstóll og skírnarfontur eru skornir út af Ríkarði Jónssyni myndskera.
Altaristaflan er eftir dr. Magnús Jónsson, guðfræðiprófessor og listmálara. Hún sýnir skírn Jesú. Önnur altaristafla er á kórvegg í kirkjunni og er hún frá því um aldamótin 1800. Í miðju er Jesús á fjallinu, og á hliðarvængjum Móse og Aron.Kirkjan á gylltan kaleik og patínu sem fylgir með kaleiknum. Kirkjuklukkur Melstaðarkirkju eru frá árunum 1740 og 1764.

