
- Ægir Örn Sveinsson
- Sóknarprestur

Ólafsvíkurkirkja var vígð þann 19. nóvember árið 1967. Arkitekt kirkjunnar var Hákon Hertervig og byggingameistari var Böðvar Bjarnason. Kirkjan er steinsteypt, bæði þak og veggir, veglegt og vandað hús, sem skiptist í kjallara og hæð. Grunnflöturinn samanstendur af þremur þríhyrningum, tveimur litlum í sitt hvorum enda og einum stórum í miðjunni. Yfir kórnum er turn kirkjunnar, sem rís um það bil 30 metra til himins. Steindir gluggar, eftir Gerði Helgadóttur, voru settir í kirkjuna árið 1976 og eru eitt af hennar síðustu verkum. Klukknaport var byggt við kirkjuna árið 1990 og klukkurnar færðar úr turninum og niður í portið.
Eftirfarandi gripir úr Fróðárkirkju eru í Ólafsvíkurkirkju: Prédikunarstóll frá árinu 1710, skírnarskál úr silfri frá árinu 1874, altarismynd af síðustu kvöldmáltíðinni sem talin er frá því á 17. öld, kaleikur og patína frá 1836. Aðrir munir í Ólafsvíkurkirkju eru: Altaristaflan er eftirmynd töflunnar í Dómkirkjunni í Reykjavík, eftir Þórarin B. Þorláksson. Hún kom í Ólafsvíkurkirkju árið 1908, en er nú varðveitt í safnaðarheimili kirkjunnar. Kirkjan á kaleik með stút úr silfurpletti og keramikkaleik og patínu frá Kristnihátíðinni árið 2000. Í kirkjunni er pípuorgel, sem smíðað var árið 1968 í Þýskalandi og vígt árið 1969. Konsertpíanó var vígt nýtt á sjómannadaginn árið 1992. Þá er í safnaðarheimilinupíanó sem keypt var árið 1975. Kirkjuklukkur í klukknaporti eru þrjár. Þær voru gefnar árið 1967 en stýribúnaður kirkjuklukknanna var keyptur árið 1990.
