Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Bjarnanesi, 781 Höfn í Hornafirði
Símanúmer
894 8881
Facebook
www.facebook.com/bjarnanesprestakall
Bílastæði
Salerni
Streymi
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 180
Sókn
Bjarnanessókn

Bjarnaneskirkja

Bjarnaneskirkja var vígð árið 1976. Kirkjan er teiknuð af Hannesi Kr. Davíðssyni arkitekt og byggingarmeistari var Guðmundur Jónsson. Hún er óeinangruð steinkirkja, hvítmáluð að utan og innan. Kirkjuskipið er með hvolfþaki og víkkar í átt að útidyrum. Engir gluggar eru á kirkjuskipinu, en stór bogalagaður gluggi yfir útidyrum og birta kemur gegnum hann inn í kirkjuna. Upp í kórinn eru tvær tröppur, kórinn er þríhyrningslaga og neðri hluti hans er mun breiðari en kirkjuskipið, hann verður svo að þríhyrningslaga turni. Á honum er stór gluggi og mjóir gluggar til hliðar. Birtan í kirkjunni er mjög sérstök og getur verið einstaklega falleg, einkum síðla dags.

Trékross er yfir miðju altari, hannaður af Hreini Eiríkssyni. Altaristafla kirkjunnar er úr kirkjunni sem stóð við Laxá og hangir yfir altarinu. Hún er máluð af Jóni Þorleifssyni listmálara árið 1924. Myndin samanstendur af fjórum aðskildum myndum, einni þríhyrningslaga sem sýnir boðun Maríu, einni stórri í miðið, sem sýnir fæðingu frelsarans og tveimur til beggja hliða. Vinstra megin er skírn Jesú í ánni Jórdan, hægra megin er krossburður Krists til krossins.

Í kirkjunni er harmoníumorgel, átta radda, sem Kvenfélagið Vaka gaf við vígslu kirkjunnar. Prédikunarstóllinn er úr oregonpine, gegnheill og látlaus, hannaður af arkitekt kirkjunnar. Skírnarfonturinn er úr útskorinn úr viði. Á hann er letrað: Leyfið börnunum að koma til mín.

Fyrir framan kirkjuna er Bjarnaneskirkjugarður en Laxárkirkjugarður, sem oftast er notaður er staðsettur við Laxá í Nesjum.

Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu prestakallsins.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Gunnar Stígur Reynisson
  • Sóknarprestur