Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Ytra-Rauðamel, 342 Stykkishólmi
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 50

Rauðamelskirkja

Rauðamelskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1886. Hönnuður hennar er ókunnur. Í öndverðu var þakið klætt spæni, veggir timburklæddir og í kirkjunni var bogadreginn kórpallur og prédikunarstóll á frambrún hans. Þak og turn voru klædd bárujárni árið 1905 og veggir um 1910. Kórpallur var rifinn um 1938 og prédikunarstólinn fluttur að innsta glugga, sunnan megin. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki og undir honum stallur. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er krosspóstur og rammar með alls sex rúðum. Uppi á framstafni yfir kirkjudyrum er hringluggi með krossrima. Á framstafni turns er hljómop með hlera og þverglugga með bogarimum og bjór yfir.

Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi með bogarimum yfir en bjór efst. Altaristaflan er kvöldmáltíðarmynd, máluð á tré. Hún er danskt verk frá 18. öld. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir gripir frá miðri 19. öld. Þá á kirkjan aðra silfurpatínu, sem líklegast er frá 16. eða 17. öld. Tvær kirkjuklukkur eru í Rauðamelskirkju. Sú minni er frá árinu 1703, hin var fengin til kirkjunnar um miðja 19. öld.

Ljósmynd tók Jón Grétarsson.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Brynhildur Óla Elínardóttir
  • Sóknarprestur