
- Hafdís Davíðsdóttir
- Sóknarprestur

Lundarbrekkurkirkja er friðlýst steinhlaðin kirkja, sem byggð var á árunum 1879–1882. Hönnuður hennar var Baldvin Sigurðsson steinsmiður, en tréverk vann Þorgrímur Jónsson forsmiður frá Gilsá. Í öndverðu var þak klætt pappa, en var klætt bárujárni árið 1903. Bárujárnsklætt risþak er á kirkjunni og upp af vesturstafni er ferstrendur timburturn klæddur sléttu járni og á honum íbjúgt píramítaþak. Veggir kirkjunnar eru sléttaðir með þunnum múr og skín steinhleðslan í gegn. Efst á veggjum undir þakskeggi er strikuð múrbrún og strikaðar múrbrúnir eru yfir gluggum og dyrum. Á hvorri hlið kirkju eru tveir bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar, en bogadregnir trégluggar með krosspósti ofarlega á kórbaki og framstafni. Yfir gluggum og dyrum er bogadregin strikuð múrbrún. Hringgluggi úr steypujárni er á framhlið turns og hlerar fyrir hljómopi á hvorri hlið hans. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri hurð.
Altaristaflan er olíumálverk frá árinu 1916 eftir Ásgrím Jónsson listmálara og sýnir Krist flytja fjallræðuna í íslensku landslagi. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfurhúðuðum málmi. Kaleikurinn mun hafa komið úr annarri kirkju árið 1878. Patínan var gefin árið 1956. Skírnarfonturinn er úr ljósum viði með útskurði eftir Kristján og Hannes Vigfússyni í Litla Árskógi. Hann var gerður árið 1972. Í turni Lundarbrekkukirkju er ein klukka, fornleg og án áletrunar. Hún mun hafa komið í kirkjuna á árabilinu 1892-1912.
