
- Edda Hlíf Hlífarsdóttir
- Prestur

Holtastaðakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1892–1893. Hönnuður hennar var Þorsteinn Sigurðsson forsmiður. Í öndverðu voru þök og veggir klædd pappa en turnþak sinkklætt og kirkjan stóð á steinhlöðnum sökkli. Þök voru bárujárnsklædd um 1905, en veggir árið 1929 og sökkull steinsteyptur þegar gert var við kirkjuna á árunum 1976–1981. Árið 1978 skrautmálaði Jón Valgarð Winther Jörgensen kirkjuna að innan. Þök kirkju og kórs eru krossreist. Kirkjan er klædd bárujárni, turnþök og hliðar turns sléttu járni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír smárúðóttir oddbogagluggar úr steypujárni og einn á hvorri hlið kórs. Minni oddbogagluggi er á framhlið stöpuls og gluggi með oddboga efst.
Stöpull nær upp yfir mæni kirkju og á honum er áttstrent þak. Á honum er áttstrendur burstsettur turn með lágt áttstrent þak. Bogadregnir faldar um fölsk hljómop eru á fjórum turnhliðum en blómskurður efst á hverri hlið. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og oddbogagluggi yfir. Altaristaflan er olíuþrykk á blikkplötu og er eftirmynd af kvöldmáltíðarmynd Leonard da Vinci frá árinu 1840. Kirkjan á silfurkaleik og patínu í gotneskum stíl, sem talin eru íslensk smíð frá 16. öld. Skírnarfonturinn er steinsteyptur stöpull með stálskál. Þá á kirkjan einnig óvenjustórt skírnarfat úr þunnu látúni. Prédikunarstóllinn er átthyrndur og er dönsk smíð frá árinu 1792. Á spjöldin eru málaðar myndir. Klukkur Holtastaðakirkju eru tvær. Önnur er frá árinu 1588, hin er nokkru yngri.

