Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Skagavegi, 546 Skagaströnd
Kirkjugarður
Bílastæði
Fjöldi: 60
Sókn
Hofssókn

Hofskirkja á Skagaströnd

Hofskirkja á Skagaströnd er friðlýst timburkirkja frá árinu 1870. Hönnuður hennar var Sigurður Helgason forsmiður frá Auðólfsstöðum. Í upphafi var steinhlaðinn sökkull undir kirkjunni og þak pappaklætt. Þak var klætt bárujárni árið 1925, sökkull var steyptur árið 1949 og kirkjan múrhúðuð að utan árið 1954. Trapisustál var sett á þakið árið 1969 og á árunum 1989–1995 var múrhúðun brotin af, nýir gluggar smíðaðir og veggir klæddir listaþili. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er trékross. Kirkjan er klædd listaþili, þak trapisustáli og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir póstagluggar með tveimur fjögurra rúða römmum og einn heldur minni er á framstafni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir, okahurðir utan en spjaldahurðir að innan. Trétröppur með fimm þrepum eru framundan kirkjudyrum.

Altaristaflan er kvöldmáltíðarmynd, sem er máluð á tré. Taflan er erlent verk frá 18. öld og var fyrr í Spákonufellskirkju. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem smíðuð voru af Þorgrími Tómassyni, gullsmið á Bessastöðum. Auk þess á kirkjan kaleik, sem er erlendur frá 18. öld eða upphafi 19. aldar. Prédikunarstóllinn er sexstrendur með máluðum myndum. Hans er fyrst getið í vísitasíu árið 1758. Skírnarfonturinn er útskorinn tréfótur, gerður af Sveini Ólafssyni myndskera í Reykjavík. Hann er með silfraðri skál, sem í stendur önnur skál úr gleri. Tvær klukkur eru í Hofskirkju. Önnur var gefinn kirkjunni árið 1780, hinnar er fyrst getið árið 1787.

Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Edda Hlíf Hlífarsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Magnús Magnússon
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Margrét Rut Valdimarsdóttir
  • Héraðsprestur Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi