Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Svalbarði, 606 Akureyri
Bílastæði
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 140
Sókn
Svalbarðssókn

Svalbarðskirkja á Svalbarðseyri

Svalbarðskirkju í Laufásprestakalli teiknaði Bárður Ísleifsson og hófst byggingin árið 1952. Yfirsmiður var Adam Magnússon byggingameistari á Akureyri. Altari og söngloft smíðaði Ágúst Jónsson, en teikningu gerði Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt. Kirkjan var vígð á uppstigningardag þann 30. maí árið 1957. Grunnflötur kirkjunnar er 115 fermetrar, en norður úr henni gengur 44 fermetra álma, sem í fyrstu var nýtt sem skrúðhús, fundarstofa eldhús, snyrtiherbergi og líkhús. Síðar var þessari álmu breytt og líkgeymslan aflögð. Hæð kirkjunnar er 17 metrar.

Kirkjan er byggð úr járnbentri steinsteypu járnlögðu timburþaki. Veggir eru einangraðir með vikri og korki. Múrhúðuð hvelfing er einangruð með gosull. Á sönglofti er vandað pípuorgel. Altaristaflan er eftir Magnús Jónsson. Hún sýnir Jesú og samversku konuna við brunninn. Kirkjan á kaleik með stimpli og ártalinu 1847. Hann er gyltur að innan og grafinn bekkur að utan. Patínan er ekki samstæð kaleiknum. Auk þess á kirkjan annan kaleik og patínu. Skírnarsárinn er útskorinn úr tré. Jóhann Björnsson á Húsavík gerði hann. Ofan í hann er felld hin forna skírnarskál, sem kirkjan átti. Skírnarskálinni er lýst í kirknaskrá Þjóðminjasafnsins frá árinu 1912. Hún er talin úr messing og er í barokk stíl. Predikunarstóllinn var útskorinn af Jóhanni Björnssyni á Húsavík. Kirkjuklukkur eru í kirkjuturni.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Hafdís Davíðsdóttir
  • Sóknarprestur