Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Skálholti, 806 Selfossi
Símanúmer
486-8801
Vefsíða
skalholt.is
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Streymi
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 300
Sókn
Skálholtssókn

Skálholtsdómkirkja

Skálholtsdómkirkja er friðlýst steinsteypukirkja, sem vígð var á Skálholtshátíð árið 1963.Hún var í byggingu frá 1956 til 1963. Hönnuður hennar var Hörður Bjarnason arkitekt, húsameistari ríkisins. Mennta- og menningarmálaráðherra friðaði Skálholtsdómkirkju, ásamt Skálholtsskóla og nánasta umhverfi, þann 21. desember 2012. Friðunin nær til innra og ytra byrðis kirkjunnar. Byggingarnar tvær, Skálholtsdómkirkja, sem Hörður Bjarnason húsameistari ríkisins teiknaði árið 1956, og Skálholtsskóli, sem arkitektarnir Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson teiknuðu árið 1970, eru tvær af vönduðustu byggingum 20. aldar á Íslandi og hafa því mikið gildi í byggingarlistasögu þjóðarinnar. Í útfærslu sinni á Skálholtsdómkirkju hafði Hörður hliðsjón af Brynjólfskirkju, sem stóð í Skálholti frá 1650 til 1807. Kirkjan er krosslöguð, með þverskipi og hliðarskipum og er einstaklega glæsileg í einfaldleika sínum og látleysi. Skálholtsdómkirkja var vígð í júlí árið 1963 og er tólfta kirkjan á staðnum.

Að innan er kirkjan einnig látlaus og einföld og njóta steindir gluggar Gerðar Helgadóttur sín því afar vel. Í kirkjunni er mikið af listaverkum, en ein helsta prýði hennar verður að teljast mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur á kórgafli kirkjunnar. Hún sýnir Krist upprisinn, koma á móti kirkjugestum í íslensku landslagi. Kirkjan á altarisstjaka úr kopar í barokkstíl, sem Íslenska verslunarfélagið gaf Skálholtsdómkirkju árið 1651. Þá á kirkjan aðra altarisstjaka úr kopar í barokkstíl frá 17. öld, sem keyptir voru til kirkjunnar árið 1890. Kirkjan á silfurkaleik og patínu. Kaleikurinn er enskur smíðisgripur, fenginn til kirkjunnar árið 2010, en patínuna smíðaði Ásbjörn Jacobsen árið 1874. Þá á kirkjan silfurkaleik og patínu, en Sigurður Pálsson fyrrum vígslubiskupi, gaf gripina. Í norðurstúku kirkjunnar er altari, smíðað úr eik árið 1673.

Það er úr kirkju Brynjólfs biskups Sveinssonar. Þá er í kirkjunni ljósahjálmur úr kopar, sem Brynjólfur Sveinsson lét steypa handa kirkju sinni. Skírnarfonturinn var höggvinn úr steini af Juul Andrassen steinsmið í Færeyjum. Hann var gjöf frá færeysku kirkjunni við vígslu hennar. Prédikunarstóllinn var upphaflega í kirkju Brynjólfs biskups Sveinssonar. Hann er sexstrendur og með máluðum myndum af Kristi og guðspjallamönnunum fjórum.

Í kirkjunni er tólf radda pípuorgel, smíðað í orgelsmiðju Th. Frobenius og Sönner í Danmörku. Í kirkjunni er kirkjuklukka frá tímabilinu 1150-1300. Hún er á rambaldi í norðurstúku. Kirkjuklukkurnar eru sjö alls, sex þeirra í turni, fimm nýjar og tvær gamlar. Nýju klukkurnar eru afar stórar og eru gjafir frá Svíum, Norðmönnum og Finnum. Stærstu klukkurnar tvær eru gjöf frá Svíum, önnur frá Íslandsvinum, en hin frá sænska prestafélaginu.

Ljósmynd tók Ainars Brūvelis.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Kristín Þórunn Tómasdóttir
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Bergþóra Ragnarsdóttir
  • Djákni
Mynd sem tengist textanum
  • Kristján Björnsson
  • Vígslubiskup í Skálholti