
- Gunnar Stígur Reynisson
- Sóknarprestur

Allt fram til ársins 1885 var torfkirkja á Kálfafellsstað. Þann 7. janúar árið 1886 fauk kirkjan í ofsaveðri. Margir munir björguðust þar á meðal skreytt tréstytta af Ólafi helga sem fannst langt frá kirkjustæðinu. Styttan er í dag einn af grunnmunum Þjóðminjasafns Íslands.
Guðjón Samúelsson er arkitekt kirkjunnar og var hún vígð árið 1927. Kirkjan tekur 80 manns í sæti og er aðgengi gott. Kirkjan er hefðbundin steinkirkja í stíl Guðjóns Samúelssonar. Yfirsmiður við byggingu hennar var Sigjón Jónsson í Borgarhöfn. Nýtt turnþak var smíðað 1993 og turninn færður til upphaflegs horfs. Efst á honum er kross.
Úr forkirkju liggur stigi upp í turn. Útihurð er vegleg og úr forkirkju eru vængjahurðir inn í kirkjuskipið.
Turninn er málaður hvítum lit, líkt og kirkjan öll að utan. Járn á þökum og gluggar eru rauðir. Prédikunarstóll kirkjunnar er smíðaður í gömlum stíl. Altaristaflan sem sýnir upprisuna er frá fyrstu dögum kirkjunnar. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri. Skírnarfonturinn var hannaður og smíðaður úr túlipanatré af Halldóri Sigurðssyni og Hlyni Halldórssyni í Miðhúsum,
Kirkjan á skírnarskál úr silfri. Með henni fylgir kristalsskál og borð sem skírnarskálin stóð á. Skírnarskálin er nú í nýjum skírnarfonti, frá árinu 1987. Kirkjuklukkur eru tvær. Ítalskt orgelharmóníum, er í kirkjunni og var keypt 1996.
Fósturjarðartorg er í kirkjunni, hannað og smíðað af Ragnari Imsland.
Kálfafellsstaðarkirkja hefur öll verið endurbætt og lagfærð, utan sem innan. Nýtt þjónustuhús var byggt og tekið í notkun 2003.
Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu prestakallsins.
