Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Möðruvöllum, 604 Akureyri
Bílastæði
Safnaðarheimili
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 150
Sókn
Möðruvallaklausturssókn

Möðruvallaklausturskirkja

Möðruvallakirkja í Hörgárdal er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1867. Hönnuður hennar var Jón Christinn Stephánsson forsmiður. Yfirsmiður var Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Þak kirkjunnar er krossreist og klætt bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru sex smárúðóttir oddbogagluggar úr steypujárni og einn á framhlið yfir dyrum. Kirkjan er klædd slagþili og stendur á steinsteyptum sökkli. Upp af framstafni er hár og breiður ferstrendur stallur og á honum er áttstrendur turn.

Á turnstalli er áttstrent bryggjumyndað þak en lág áttstrend íbjúg spíra á turni. Turnþök eru klædd sléttu járni. Bogadregin hljómop með hlera fyrir eru á þremur hliðum turns, en inndregnir bogafletir á turni.

Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir og um þær faldar og strikaður bogadreginn bjór yfir. Altaristaflan er eftir danska málarann Edvard Lehmann, máluð árið 1866. Hún sýnir Krist ganga út úr grafarhellinum. Umgerð töflunnar er teiknuð og smíðuð af kirkjusmiðnum Þorsteini Daníelssyni.

Kirkjan á silfurkaleik og patínu, smíðuð af Friðfinni Þorlákssyni gullsmið á Akureyri um miðja 19. öld. Skírnarfonturinn var smíðaður og skorinn út af Þorsteini Daníelssyni kirkjusmið árið 1866. Skírnarskálin var smíðuð í Kaupmannahöfn árið 1866. Tvær kirkjuklukkur eru í Möðruvallakirkju í Hörgárdal. Þær voru steyptar í Kaupmannahöfn árið 1866.

Ljósmynd tók Eysteinn Guðni Guðnason.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Erla Björk Jónsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Oddur Bjarni Þorkelsson
  • Sóknarprestur