Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Hamraborg 2, 200 Kópavogi
Símanúmer
554-1898
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Fjöldi: 270
Sókn
Kársnessókn

Kópavogskirkja

Kópavogskirkja var reist á árunum 1958-1962 eftir teikningum frá embætti Húsameistara ríkisins sem Hörður Bjarnason veitti forstöðu á þeim tíma. Ragnar Emilsson, arkitekt hjá embættinu, vann ásamt húsameistara mikið að teikningu kirkjunnar. Kópavogskirkja er krosskirkja og að því leyti hefðbundin en bogar hennar, sem svo mjög einkenna hana, gera hana sérstaka og gefa henni í senn tignarlegt og mjúkt yfirbragð. Kirkjan þykir eitt af fegurstu guðshúsum landsins og fagur vitnisburður um þau sem að unnu og verðug umgjörð um helgihald og tilbeiðslu. Frá kirkjunni er útsýni mikið og fagurt enda eru þau mörg sem koma þangað bæði til að njóta hins mikla útsýnis, skoða kirkjuna og njóta þar friðar og andlegrar uppbyggingar.

Steindir gluggar listakonunnar Gerðar Helgadóttur prýða kirkjuna, setja mikinn svip á hana og ljá henni yfirbragð helgi, friðar og listrænnar fágunar. Gluggarnir voru smíðaðir af gluggasmiðju Oidtmann-bræðra í Þýskalandi. Altarismynd, eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur, var sett upp árið 1990 og er hún byggð á frásögn í 13. kafla Jóhannesar guðspjalls um það hvernig Kristur laugaði fætur lærisveina sinna. Listakonan Barbara Árnason gerði mynd sem er í kirkjunni og sýnir Jesú blessa börnin. Barbara gerði einnig fjórar myndir, unnar í messing sem eru á predikunarstól kirkjunnar. Þær eru táknmyndir fyrir guðspjallamennina fjóra. Kirkjan á tvo silfurkaleika, silfurpatínu og brauðbuðk úr silfri. Skírnarfonturinn er úr viði með koparskál. Auk þess á kirkjan skírnarskál úr silfri.

Orgel kirkjunnar er 31 radda orgel, frá P. Bruhn & Sön Orgelbyggeri, með þremur nótnaborðum. Orgelið var vígt við hátíðlega athöfn þann 12. janúar árið 1997. Í kirkjunni er svart Yamaha píanó og Bosendorfer píanó úr eik er í safnaðarheimili. Klukkur kirkjunnar voru settar upp árið 1963. Sú stærri er 330 kg að þyngd og hefur tóninn b en sú minni er 205 kg og hefur tóninn des. Klukkurnar voru steyptar í Þýskalandi hjá Engelbert Gebhard. Þeim var handhringt til ársins 1989, að rafstýring var sett upp.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Ásta Ágústsdóttir
  • Djákni
Mynd sem tengist textanum
  • Grétar Halldór Gunnarsson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Sigurður Arnarson
  • Sóknarprestur