Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Nauteyrarkirkjuvegi, 512 Hólmavík
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 50
Sókn
Nauteyrarsókn

Nauteyrarkirkja

Nauteyrarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1885–1886. Hönnuður hennar var Guðni Árnason forsmiður. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með píramítaþaki. Kirkjan er klædd bárujárni, turn sléttu járni og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með átta rúðum en uppi yfir kirkjudyrum er minni gluggi með sex rúðum og annar á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og yfir þeim þvergluggi með skásettum rimum og bjór efst.

Altaristaflan er olíuþrykk af málverki austuríska málarans Hans Zatzka 1859-1945, öðru nafni Zabateri. Myndin sýnir Krist lyfta upp hægri hendi til blessunar og var gefin kirkjunni árið 1926.

Kirkjan á silfurkaleik og patínu. Kaleikurinn var smíðaður árið 1758 og patínan árið 1773 af Sigurði Þorsteinssyni gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn. Þá á kirkjan annan silfurkaleik og patínu, sem eru danskir smíðisgripir frá árinu 1773. Kirkjan á skírnarfat úr messing, sem getið er um í vísitasíu árið 1700. Klukkur Nauteyrarkirkju eru báðar úr Kirkjubólskirkju, önnur er frá árinu 1861, hin frá árinu 1854.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Elísa Mjöll Sigurðardóttir
  • Sóknarprestur