
- Laufey Brá Jónsdóttir
- Prestur

Bústaðakirkja var hönnuð af Helga Hjálmarssyni arkitekt. Kirkjan var vígð þann 28. nóvember árið 1971. Það sem einkennir kirkjuna eru glerlistaverk eftir Leif Breiðfjörð í gluggum. Til að íþyngja ekki gluggunum um of formrænt séð, brá listamaðurinn á það ráð að hengja sjálft frumlag verksins, fíngert krossmark, fyrir framan gluggana og dreifa síðan smágerðum endurtekningum þess þannig að þær stefna að hengikrossinum miðjum. Verkið er abstrakt, unnið með texta úr Opinberunarbók Jóhannesar í huga. Þó má geta þess að allar meginlínur verksins liggja í átt að miðju krossins sem hangir fyrir ofan altarið.
Kirkjan á kaleik og patínu, sem gefin voru til kirkjunnar. Þá á hún oblátubauk, sem var gjöf frá söfnuðinum í Þórshöfn í Færeyjum. Þá á kirkjan annan kaleik og patínu, sem einnig var gjöf. Skírnarfonturinn var minningargjöf um Sigríði Ágústsdóttur frá Birtingaholti frá Skúla Oddleifssyni. Orgelið var smíðað hjá Th. Frobenius & Sønner í Kaupmannahöfn. Raddval orgelsins gerði þáverandi organisti kirkjunnar, Guðni Þ. Guðmundsson. Röddun gerði Mogens Petersen. Orgelið hefur 31 rödd sem skiptast á þrjú hljómborð og fótspil. Í kirkjunni er flygill, sem er í eigu Kammermúsikklúbbsins. Auk þess er píanó í safnaðarheimilinu. Kirkjuklukkurnar eru í steinsteyptu klukknaporti utan við kirkjuna.
Ljósmynd tók Guðmund Karl Einarsson



