Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Möðruvöllum, Eyjafjarðarbraut eystri, 605 Akureyri
Bílastæði
Streymi
Kirkjugarður
Fjöldi: 100

Möðruvallarkirkja

Möðruvallakirkja í Eyjafirði er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1847-1848. Hönnuður hennar er talinn vera Flóvent Sigurðsson forsmiður. Þak kirkjunnar er krossreist, klætt bárujárni og á suðurhlið þess er kvistgluggi með fjórum rúðum. Upp af framstafni er lágur ferstrendur stallur skreyttur renndum pílárum og á honum randskorinn trékross.

Kirkjan er klædd slagþili og stendur á steinsteyptum sökkli og er stöguð niður á suðurhlið á þremur stöðum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með tveimur sexrúðu römmum hver. Tveir gluggar með fjögurra rúðu römmum eru á kórbaki og einn með sexrúðu ramma uppi á stafninum. Á framstafni er gluggi með fjögurra rúðu ramma. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi að ofan. Yfir dyrum er brík studd kröppum og bikar sem tvö blöð sveigjast út frá.

Gengt kirkjunni er fornt klukknaport. Í kirkjunni er ensk altarisbrík úr alabastri frá árunum 1450-1470. Þetta er Maríubrík með lágmyndum sem sýna Jóhannes skírara, boðun Maríu, fæðingu Krists, upprisu Krists, uppnumningu Maríu, krýningu Maríu og Jóhannes guðspjallamann. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, líklega frá 15. eða 16. öld. Þá á kirkjan silfurþjónustukaleik og patínu, sem er íslensk smíð frá 19. öld. Þrjár klukkur hanga á ramböldum í klukknaportinu vestan við kirkjuna. Sú stærsta er frá árinu 1769, önnur er frá árinu 1799 og sú þriðja er frá árinu 1867.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Aðalsteinn Þorvaldsson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Hildur Eir Bolladóttir
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Jóhanna Gísladóttir
  • Prestur